21.7.2008 | 00:43
Bryggjublús
Það er gaman að horfa yfir á hafnargarðinn í Ólafsfirði á jafn fallegu kvöldi og er núna. Ég bý við höfnina og er eins og í stúkusæti þegar ég sit við eldhúsgluggann og horfi út. Það er urmull af fólki að veiða kvöld eftir kvöld og má segja að þarna unir sér fólk á öllum aldri að draga fisk að landi.
Dætur mínar og frænka okkar sem dvelur hjá okkur hér " í sveitinni" eins og hún segir, fóru að veiða í kvöld. Mér varð litið út um gluggann og sé að þær hafa fest spúninn í dekki á bryggjunni og er ein þeirra að klifra niður og reyna að losa, ég vippa upp glugganum og kalla yfir til hennar að koma sér upp þetta sé bannað og hún var ekki lengi að snara sér upp. Ég hugsaði á eftir að þetta hlyti að vera ægilega heimilislegt, það er svo kyrrt að það glumdi í Bjargfrúnni um allan fjörð. Sá að útlendingar sem voru þarna að veiða litu upp en létu sér fátt um finnast, örugglega Ítalir því þótt þeir skyldu ekki málið þá skyldu þeir að þarna var "mamma" að kalla. Veiðin var góð hjá þeim frænkum þrjár ýsur og einn þorskur, sem þær síðan slægðu og fengu hjálp við að flaka þegar þær komu heim. Nú er veiðin komin í frysti og er verið að safna í fiskibolluhlass með haustinu.
Skrapp á Kleifarnar og það var aldeilis líf og fjör þar og ekki sýndist mér að fólk væri á leið í háttinn, enda ekki komið á Kleifarnar til að sofa. Einhverjir voru á sjó og aðrir að njóta þess að vera til. Út um eldhúsgluggann minn sé ég ljós í Árgerði og það er notalegt að vita að nú er líf í húsi afa og ömmu.
Góða nótt
Um bloggið
Bjargfrúin
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ó, já, kæru landsmenn hún Ásta er á vaktinni og börnum ykkar er óhætt á bryggjunni he, he.
egvania, 21.7.2008 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.