10.8.2008 | 15:52
Ég kom að þeim...
Ég gekk fram á þau þar sem þau lágu þétt upp við hvort annað, líkt og þau hafa gert síðustu ár, alltaf jafn ástfangin og trygg hvort öðru. Aðeins fer henni þó aftur með ári hverju, lúin og farin að láta á sjá. En hann stendur við hlið hennar alltaf jafn hnarreistur, þar til yfir líkur og hún hvílir sem mold við hlið hans um ókomin ár.
Síðan ég man eftir mér hef ég séð þau saman, fyrst stóð hún við hlið hans alla daga, há, fögur og vel máluð, þar til Kári feykti henni um koll í einum ofsanum og síðan hefur hún legið út af. Fyrstu árin sem hún lá þarna við hlið hans var hún jafn fögur og áður, og þessi sjón var ekki síðri, að líta þau saman, hann hár og stæltur og hún liggjandi við fætur hans.
Ekki veit ég hvað þeim hefur farið á milli öll þessi ár en eflaust hafa þau haft næg umræðuefni, þótt ekki væri nema um mannlífið fyrir neðan þau neðst í dalnum og ástarlíf vinkonu þeirra sem leggur á sig ferð dag hvern til að eiga ástríðufull stefnumót við Ægir þar sem þau verða eitt aftur og aftur á sama stað og síðast.
Hér áður velti ég því fyrir mér hvernig fundum þeirra tveggja hefði borið við, hver hefði verið þess valdur að hún lenti þarna hjá honum en aldrei fann ég nein svör og enginn kannaðist við hana né hvaðan hún kom. Falleg þar sem hún stóð og tilhöfð í byrjun má sjá að henni var ætlað annað hlutverk en einhverra hluta vegna lenti hún þarna og varð eftir. Eflaust hefur sá sem réð för hennar áður ætlað að sækja hana síðar en fundið aðra hentugri eða ekki lokið verkinu.
Ég sé að hún verður horfin löngu á undan honum og upp af moldu hennar mun vaxa fallegur fífill og berjalyng í skjóli hans sem mun aldrei gleyma henni sem var honum samferða öll þessi ár. Ég mun halda áfram að vitja þeirra og ef hún hverfur á undan mér munu ég setjast niður hjá honum á góðviðrisdegi og segja honum frá kostum hennar og fegurð og hvað þau voru alltaf falleg saman. En þar sem það er langt þangað til þá ætla ég að fá mér ofurlítinn blund í lautinni sunnan við stekkinn.
Um bloggið
Bjargfrúin
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 30208
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.