1.9.2008 | 10:45
Dagurinn hennar mömmu
Í dag á hún mamma afmæli, hún er 87 ára. Eins og áður munum við gera okkur glaðan dag og ég hef undirbúið Sólheima í tilefni dagsins. Í gærkveldi fór ég og tók til og núna býður eftir henni hvítdúkað borðstofuborðið með sparistellinu þegar hún kemur heim. Mamma dvelur á Hornbrekku dvalarheimili fyrir aldraða hér í Ólafsfirði. Þar líður henni vel, enda ekki annað hægt þar sem starfsfólkið er frábært og alltaf eitthvað í gangi fyrir vistmenn. Stundum bregðum við okkur á rúntinn ef hún er eitthvað leið og þá er komið við í sjoppunni og mamma kaupir pylsu með öllu sem er hennar uppáhald. Við hlustum á KK og Magga þeir hafa einstakt lagaval sem hittir beint í mark hjá dömum eins og henni. Og þegar við erum búnar að rúnta smá þá er mamma komin í sólskinsskap og syngur með.
Mamma fæddist í torfbænum á Kvíabekk og sagði Petrea móðursystir hennar mér oft frá þeim degi þegar hún fæddist. Þá var Petrea 12 ára og mamma var alltaf mikið í uppáhaldi hjá henni. Þær systur Anna amma og Petrea voru í heyskap ásamt fleirum og amma var kasólétt, allt í einu hljóp hún heim að bæ og þegar Petrea kom heim nokkru síðar var fædd dama. Amma Anna var alltaf hlaupandi og hefði örugglega hlaupið nokkur maraþon ef hún væri uppi í dag, það eru ótrúlegar hlaupasögurnar af henni og alltaf var hún tágrönn og spengileg fram á síðasta dag þá komin hátt í 100 árin.
Það voru sannarlega ekki jafn mörg tækifæri fyrir fólk hér áður og er í dag. Við systur segum t.d. alltaf að ef mamma hefði átt þess kost að ferðast út um allan heim líkt og ungt fólk í dag, þá værum við ekki til. Mamma elskar ferðalög og fær ótrúlegan fiðring í sig sem hellist yfir hana þegar hún vill fara á flakk. Hún er félagslind og hefur alla tíð liðið best innan um sem flest fólk og á ferðalagi. Það voru ekki lík hjón þannig séð foreldrar mínir, pabbi undi sér best heima og fannst alveg nóg að koma að bryggju í öðrum bæjarfélögum annað þyrfti hann ekki að sjá. Þó það breyttist síðari ár og ferðuðust þau víða um landið með vinafólki sínu.
Mamma er sjálfstæð í hugsun og framarlega í kvennaréttindabaráttu. Hún starfaði mikið með kvenfélaginu hér og á Eyjafjarðarsvæðinu. Ekki skildi ég þegar ég var unglingur hvað hún var alltaf að gera á þessum fundum og þingum sem hún fór á og konur ræddu og áliktuðu meðal annars um álver við Eyjafjörð. Þessi umræða var þá komin fyrir meira en tuttugu árum og kvenfélagskonur voru mjög á móti álveri hér á svæðinu. Enda enn í dag fyllist hún krafti og nær sér upp ef einhver minnist á álver við Eyjafjörð. Ég þekki ekki til starfa kvenfélaga í dag og hef aldrei reyndar verið í félaginu. En ég held það væri vettvangur að skoða hvað þessi félög gerðu og hvað konurnar sem störfuðu þar áður höfðu mikil áhrif á samfélagið. Þarna hittist hópur kvenna með ólíkan bakgrunn og ólíkar pólitískar skoðanir en komu svo ótrúlega miklu í verk. Og trú hef ég á því að þær umræður sem urðu þeirra á milli þegar konurnar komu saman hafi skilað sér út í þjóðfélagið, það er nefnilega með konur að þær vinna oft stærstu verkin baka til án þess að vera í fremstu víglínu. Margur hélt nefnilega ranglega að þær væru aðeins að prjóna sokka og undirbúa basar á þessu fundum. Þar held ég að margur karlinn hafi misreiknað sig, konur geta nefnilega bæði prjónað og rætt um háalvarleg mál samtímis.
Og mamma gerði margt í einu, sat og prjónaði dúka, réði krossgátu og horfði á sjónvarpið og hún vissi nákvæmlega alltaf hvað var að gerast í kringum hana líka. Mamma mín til hamingju með afmælið og þó þú sért ekki eins virk á öllum sviðum og þú varst áður þá ertu enn sú alklárasta.
Um bloggið
Bjargfrúin
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Till hamingju með mömmu þína Ásta mín. Hugsa sér það eru liðin 37 ár frá fimmtugsafmælinu hennar. Ótrúlegt. Skilaðu kveðju. Með beztu kveðju.
Bumba, 1.9.2008 kl. 19:31
Man eftir 50 ára afmælinu hennar, þvílikt fjör og það er til mynd af þér einhvers staðar úr veislunni.
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir, 1.9.2008 kl. 20:38
Hæ, Ásta mín ég er komin heim.
Til hamingju með daginn hennar mömmu og knús frá mér fyrir veisluna í dag.
egvania, 1.9.2008 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.