1.7.2008 | 22:21
Að hugsa til baka.
Fyrir 12 árum að kveldi 1. júlí var ég að springa úr óléttu, man að veðrið var undurfagurt þetta kvöld og ég fór út að ganga með mömmu. Ég var alveg búin að fá nóg af þessari kúlu og langaði aðeins að fá litla íbúann í fangið. Við mamma gengum um Kleifarnar og hittum marga, Það var fólk í hverju húsi og einhvern veginn voru allir á ferli á þessu fallega kvöldi. Ég fór upp og niður brekkur, brölti tröppur og gott ef ég klaungraðist ekki yfir girðingar og rak rollur af túninu. Eitthvað hafði allt þetta brölt að segja því um nóttina lét dóttir mín vita að hún nennti ekki þessu hangsi lengur og vildi komast út.
Á þessum tíma bjó ég á Kleifunum því það var verið að laga húsið mitt, ég á gamalt hús og það átti að laga það aðeins til. Verkið varð meira en við héldum og áður en ég vissi var búið að rífa allt út úr húsinu. Brjóta upp gólf á neðri hæð og fylla upp í gluggalausan kjallara undir miðju húsinu, sem reyndar var ekki manngengur nema mýslum eins og mér. Rífa alla veggi, brjóta niður reykháf, rífa meira á efri hæð og allt í einu var húsið nánast fokhelt. Það eina sem er eftir er gamli stiginn sem ég vildi halda, hann var tekinn niður og settur upp aftur þegar búið var að steypa í gólf á neðri hæð. Ég hafði vaska menn í vinnu og ekki síst manninn minn sem lagði dag og nótt við að koma húsinu í stand aftur þannig að við gætum flutt aftur heim.
Það er skemmtileg minnismerki á geymslugólfinu, þannig var að við áttum tvo ketti á þessum tíma og hétu þeir Viktor og Hektor, um nóttina þegar steypan var blaut hafði annar þeirra gengið yfir gólfið í geymslunni og enn í dag má sjá loppuförin á gólfinu. Gestur frændi múrari varð alveg miður sín þegar hann sá þetta um morguninn og vildi pússa yfir loppuförin en við vildum hafa þetta á gólfinu og mér hlýnar alltaf pínu í hjartanu þegar ég sé loppuförin eftir kisa minn sem er löngu dáinn.
Í kvöld viðrar ekki eins vel og kvöldið góða fyrir 12 árum, það er hávaða rok og rigning en ég vona að veðrið verði betra á morgun því við stefnum á stóra grillveislu á Kleifunum fyrir heimasætuna sem verður 12 ára á morgun.
Um bloggið
Bjargfrúin
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ójá þegar ég les þetta þá man ég þetta kvöld, mig var farið að lengja eftir þessu blessaða barni enda búin að bíða í ansi mörg ár eins og eftir móðurinni sem loksins kom þegar ég var 13 ára. Ég minnist þess þegar mínir menn komu heim, gráir af ryki og sérstaklega eftir reykháfsbrotið. Til gamans má geta þess að gamli stiginn kom úr versluninni Lín sem stóð á móts við húsið sem hýsir núna lyfjaverslunina. Þessa gömlu búð áttu þær Ragna Páls ( mamma Elínar gömlu vinkonu minnar og Þórðar Gunnars ) og kona að nafninu Guðrún sem síðar bjó rétt hjá Grund við Hringbrautina man sko eftir dóttir hennar þar " jess " ferlega er ég nú alltaf gáfuð. Svo eru það Viktor og Hektor furðulegustu kettir sem ég hef séð stórir og miklir ekki svipaðir nokkrum venjulegum íslenskum köttum læddust um eins og tígrisdýr svo stoltir og merkilegir með sig að ég fékk bara að nálgast þá þegar ég gaf þeim að éta á öðrum tímum sýndu þeir mér megnustu fyrirlitningu. Ég gæti nú sennilega látið mér hlýna um hjartarætur ef ég skoða sporin það eru margar minningarnar sem ég á um þá blessaða, ætla mér ekki að skrifa meira um þá að sinni en skoðið bara vel jólabókaflóðið árið 2010.
Ásta ári síðar. Villi gangi þér vel í rigningunni og rokinu.
egvania, 1.7.2008 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.