Færsluflokkur: Dægurmál

Fyrsti vetrardagur og bónin hennar Nínu

Það má með sanni segja að vetur konungur hefur stungið nefi sínu og eyrum  inn um gættina hér  á hjara veraldar. En það er svei mér gaman, segi það satt Happy það var búið að vera hér dásamlegt vor og sumar og haust að við tökum vetri eins og vera ber. Vetur þegar tímatalið segir vetur og sumar þegar á að vera sumar. 

Hér í Ólafsfirði hefur fyrsti vetrardagur verið haldinn með glens, gaman og éta yfir sig stæl um ára raðir og varð enginn undantekning á því núna.  Bæjarbúar flykktust í Tjarnarborg og gerðu sér glaðan dag.   Við hjá Norlandia ákváðum að skella okkur á djammið, tekið hús á Ásgeiri og Kristínu svona rétt upp úr miðdegiskaffi Tounge svona aðeins til að taka úr sér hrollinn fyrir húllumhæið.  Finni mágur var svo elskulegur að hann stýrði ferjunni og kom öllum til skila í Tjarnarborg hér um bil þegar átið var að byrja, þurfti reyndar nokkrar ferðir og eins gott að vera vel jeppaður í hríðarbil og ófærð.

Sirrý vinkona mín mætti þegar ballið byrjaði, hjúkk verð að segja að mér finnst aldrei vera búið að flauta til leiks fyrr en við tvær eru saman komnar þar sem eitthvað er um að vera.  Við sviptum herrunum á gólfið, ómögulegt annað en sýna þeim kurteisi LoL og  ég get sagt ykkur það að allt í einu í einum dansinum  tók ég eftir því að það voru ekkert nema "útlenskir" herrar á gólfinu.  Eini innfæddi var Valdi Rögnu og ég get svarið það hann var með fimm Ólafsfiskar frúr á besta aldri sem hann sveiflaði í kringum sig.   Við Sirrý vildum nú aðeins fá hann lánaðan í næsta dans en það var ekki að ræða að þær slepptu honum. 

Og ég komst að því þarna á dansgólfinu að lyftaramaðurinn okkar pólski hampar Evrópumeistaratitli í dansi og margfaldur meistari, ég hélt það liði yfir mig.... hvernig átti mér að detta þetta í hug. Maðurinn dansar ekkert smá vel og eitt er víst nú steypum við gólfið í gömlu síldarþrónni strax í næstu viku og danskennsla eftir vinnu... gjör svo vel.

Dagurinn í dag hefur verið fallegur, allt á kafi í snjó og margar skóflur á lofti.  Ég nennti ekkert að baka eins og ég hafði þó ætlað mér, eitthvað hálf slöpp sko..... ætli ég sé að fá einhverja pest? Whistling 

Þetta blogg er tileinkað Nínu sem er búin að bíða dag eftir dag.

Góða nótt 

 


Hagstætt að fara í jólaverslunarleiðangur til Íslands

Eins dauði er annars brauð, nú eru víst heilu sætaferðirnar á leiðinni til Íslands að gera góð kaup í mat og drykk. Reykjavík orðin ódýrari en París, Róm, Kaupmannahöfn og nefndu það bara.  Og hverjir græða á því?  Allt er heiminum hverfullt og ekki er öll vitleysan eins, hættum að gráta þetta kemur allt með kalda vatninu. 

Elsku Davíð minn

Ef einhver þarf á fallegum orðum að halda núna þá er það hann Davíð minn.  Sendi honum kærleikskveðjur, fallegar hugsanir og hvatningu sem aldrei fyrr.  Hvernig ætti ég að geta dæmt mann þegar ég get ekki einu sinni haft almennilega reiðu á heimilisbókhaldinu, hef ekki unnið og fórnað kröftum mínum fyrir Íslensku þjóðina og veit varla hvað er upp og niður á Seðlabankanum. Hmmmm er ekki best að rífa kjaft og segja skoðanir sínar á málefnum sem maður hefur vit á, áður en maður setur sig á háan hest hvað hefði mátt betur fara undanfarið.  Ég t.d. ætla að byrja á að laga til hjá sjálfri mér, held að það sé heillavænst.

Góðan sunnudag


Aumingja Steingrímur með heilt þjóðfélag á bakinu

Hef ekki nokkra trú á að Steingrímur eigi nokkra sáttahönd en ef svo væri þá ætti hann að nota hana til að skeina munninn á þessum fáu áhangendum sínum sem eftir eru.  Ætli það sé ekki frekar að Steingrímur á ekki neina lausn á alheimspeningamálunum sem nú ganga yfir okkur.  En sjálfur vill hann láta eins og hann hafi svör við öllu og allir hinir séu mestu aumingjar.  Það á að spila sig stórt núna koma með "Sáttahönd" hvað er maðurinn að meina? Lagði hann á okkur þessi ósköp bara til að sýna að hann gæti það og ætlar góðfúslega að draga "kreppuna" til baka  bara ef Geir tekur í höndina á honum.  Minnir óneytanlega á vinsælan dægurlaga texta hér fyrir nokkrum árum. Halo


mbl.is Sáttahöndin að þreytast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið brot úr minningum mínum

Ég heyri að dyrnar opnast  og glaðværan hlátur,  ég fer  til að aðgæta hverjir eru komnir og til að afgreiða væntanlega viðskiptavini.  Þær eru mættar systurnar úr nágrenninu til að ná sér í laugardagsnammið til að hafa með morgunsjónvarpinu.  Sú elsta fer fyrir hópnum, glaðvær og brosandi eins og ávallt og hefur ýmislegt að segja, ótrúlega spræk þetta snemma morguns. Hinar feimnari og halda sér til hlés bak við stóru systur sem hefur orðið fyrir þeim og ráðleggur hvað skal versla.  Við spjöllum smá stund og veltum fyrir okkur kostum og göllum  og hvað skal kaupa til að hressa  upp á bragðlaukana þennan laugardaginn.  Systurnar veifa og hverfa masandi út í morguninn sælar með feng sinn og ég geng í eldhúsið og held áfram vinnu minni þar.

Og þær urðu nokkrar heimsóknirnar sem brosmilda stúlkan kom á hótelið, þetta var svo nálægt og alveg í leiðinn þegar hún var að koma heim úr skólanum að henni fannst upplagt að koma aðeins við, þó oftar væri það bara til að spjalla smá heldur en að versla nammi,  enda eru ekki alltaf nammidagar.  Okkur fannst hún skondin starfsfólkinu, hafði skoðanir á öllu og fylgdist ótrúlega með hvað var að gerast í bænum.  Stundum kom hún bara við til að vita hvernig gengið hefði á Horninu í gærkveldi eða hvort viðskiptavinir hefðu ekki verið ánægðir með matinn.    Tíminn leið, ég hvarf af hótelinu, litla stúlkan varð fullorðin kona og flutti sig um set en var ávallt ein af okkur hér heima og verður það alltaf.

Það kom að því að för  hennar lá út í heim til að njóta lífsins og skoða sig um, sjá aðra  menningarheima og kynnast nýju fólki.  Allt of fljótt var för hennar á enda, og eftir sitjum við bæjarbúar harmi slegnir og með ótal spurningar sem engin svör fást við.

Hrafnhildur Lilja var sterk persóna með góða nærveru og við munum aldrei skilja hver gat og af hverju nokkur gat bundið enda á líf hennar.

Farðu í friði til nýrra heimkynna fallega stúlkan mín af hótelinu og megi ljómi minninga þinna þurrka tár þeirra sem syrgja þig.

 


Jólasnjórinn minn

Mér finnst þetta hálf fúlt að það er komin grenjandi, ausandi rigning og fallegi jólasnjórinn minn er að hverfa.   Í gærkveldi þegar við Kolur fengum okkur göngu þá féllu snjókorn á stærð við fiður niður úr loftinu og það var alveg logn.  Þetta var eins og í bíómynd, ekkert smá ævintýralegt að ganga um í þessum heimi.

Annars hef ég verið að velta vöngum yfir ástandinu á landinu okkar í dag, og af öllu þessu hugsi hugsi og hlustun  á ótal vitringa og marga þætti í fjölmiðlum síðustu daga, þá held ég að bjargvættur okkar sé sjávarútvegurinn einu sinni enn.  Það má með sanni segja að  "Landsbyggðin lifir" núna, alla vega til sjávarWink.  Hér hefur ekki verið uppsprengt verð á húsnæði né annað kapplaup, helst að ein og ein jeppadrusla komi við pyngjur íbúa þessa dagana. En við Valkyrjurnar á hjara veraldar, spýtum í lófana, brettum upp ermar, ullum á rassmörur og förum á ball í Tjarnarborg til að fagna fyrsta vetrardegi sem er á næsta leiti.  Gleymdi að geta þess að við bíðum orðið óþreyjufull eftir opnun Héðinsfjarðargangna sem við hér í Fjallabyggð höfum svo sannarlega marg, marg, marg, marg, marg, borgað með framlagi okkar til gjaldeyrissköpunar fyrir landið okkar.  Ulliði bara á okkur núna þarna í fallandi turninum ykkar á suðurhorninu.  Ár eftir ár var Siglufjörður á síldarárunum með mestu þjóðartekjurnar, stærsta síldarvinnsla í heimi.  Ólafsfjörður með hverja stórútgerðina á eftir annarri og hér eru enn gerðir út frystitogarar og landvinnsla. Hallelúja þetta er nóg í bili.  Góða nótt.


Það segir svo sem ekki neitt

Það  með þetta að það er farið að snjóa niður að byggð, isss ekkert að marka, spáir hlýnandi aftur eftir helgi.

Það er svo ótrúlega gaman  þegar fyrsti gráminn fer að koma á haustin því þá sér maður svo vel huldubyggðirnar. Ljós í gluggum á ólíklegustu stöðum og það er bara gróska í byggingaiðnaðinum hjá þeim. Annað en hér í mannabyggð sem varla hefur verið negld spýta í mörg, mörg ár fyrr en í sumar þegar byggður var áfangi við leikskólann.  En samt... það er ótrúleg gróska hér í sumar og frístundahúsum inn allann fjörð, þegar ég fer að hugsa um það þá eru þetta ekkert smá hús sem verið er að reisa á sumum lóðunum. Hver segir svo að það sé ekki byggt í Ólafsfirði.

Annars er það að frétta að Mánaberg kom inn á sunnudag, sjöundi bekkur fór í Reykjarferð og Rassmaran glottir sem aldrei fyrr út og suður af Brimnestanga ullllllllla bara á hana ég með minn fína bakhluta.Blush

 


Laugardagsverkin

Á einhverri plötu söng minnir mig María Baldursdóttir um laugardagsverkin og hvað henni leiddist þau, man það samt ekki alveg, var það kannski eldhúsverkin.  Hmmm alla vega er laugardagur í dag og ég búin að vera að dunda svona hitt og þetta annað en að ryksuga yfir gólfið hjá mér.  Er einmitt svo heppin að það er einhver fótboltaleikur í gangi núna svo ég er ekkert að trufla ástkæran eiginmann minn með ryksugunni. En ég er samt búin að stilla ryksugunni upp fyrir framan hann Wink þannig að hann er örugglega bara að bíða eftir að leikurinn klárist til að stökkva upp með þessa elsku um húsið.

Við erum með gesti núna, eða heimaganga, einn af þeim er Valli hundur og bauð ég honum með okkur Kol í sveitina. Valli er með eindæmum tónelskur hehe og ég tók nokkrar aríur á saxafóninn í sveitinni og hann söng með.  Það er ótrúlega spauglegt, hann situr á miðju gólfi og spangólar þegar hann heyrir spilað.  Að spangóla  hefur Kolur minn aldrei sýnt að hann kunni, en hann liggur oft við fætur mér og hlustar á mig spila og veltir vöngum við og við.  Þegar ég var að alast upp áttum við hana Týru, hún spangólaði stundum þegar ég lék á flautuna og eins, merkilegt nokk, þegar hnífar voru stálaðir.  Hún spratt  upp þegar stálið var tekið af veggnum og einhver mundaði sig til að brýna hníf þá setti hún sig í stellingar og gólaði sem aldrei fyrr. 

En er ekki pizzukvöld í kvöld? Alla vega segja dætur og heimagangar það, og engar aðkeyptar nei takk, heimabakaðar í boði hússins.  Verði ykkur að góðu. Tounge


Í dag kveð ég frænku mína

Hér er fallegur haustdagur, rigningarúði og ljúfur blær er hreyfir  fánann  fyrir utan sem blaktir í hálfa stöng.  Það er einhvern veginn þannig líka sem mér líður í dag er yndislega frænka mín hún Mæja Bára er jarðsungin.  Ég hefði haldið að innra mér berðist brjálað veður, stormur og haglél yfir því óréttlæti sem okkur finnst að ung kona í blóma lífsins skuli farin til annarra heimkynna.  En í staðinn er þessi hægláta sorg, ljúfur blærinn og ferskir  dropar á glugganum.  Eflaust er það vegna þess að þegar ég minnist frænku minnar þá man ég eftir hvað hún var alltaf ljúf og góð og bar með sér  ferskan andvara með brosi sínu og einstaka spékoppann sem birtist í andliti hennar og mér þótti alltaf svo merkilegur.

Ég leiði hugann að kynnum okkar frá ég man eftir mér, uppvexti, heimsóknir á milli fjölskyldna, skólagöngu, ættarmót, skátamót, rekist á hvor aðra stopult síðustu ár, sagt hæ og bæ og allt þar á milli en alltaf vitað af henni í gangi lífsins líkt og við fylgjumst með vinum og ættmennum.

Ég hitti hana síðast á ættarmótinu í sumar, svo falleg og virtist komin yfir veikindin sem höfðu barið uppá nokkrum mánuðum áður, ég er þakklát yfir þeirri minningu að kveðja hana í hinsta sinn á milli tjalda í góðra vina hópi í heimabyggð.

Ólafsfjörður er fallegur í dag, hann var það líka dánardægur hennar og þannig verða minningar um hana Mæju Báru, ljúfar og fallegar og lifa með okkur áfram.


Með þökk fyrir fallega haustið okkar

það verður að segjast að haustið hér í Ólafsfirði er hreint út sagt yndislegt í ár.  Hélt að fallegur september væri búinn að yfirgefa mig. Man eftir fyrir 11 og 12 árum og þar um bil að þessi mánuður var sannkallaður sumarauki. Síðan tók við rigningar og rok haust þannig að ég hélt að fallegi haustmánuðurinn minn væri búinn að yfirgefa mig.  Nei það er sko öðru nær, hér er Paradís þessa dagana og maður keppist við að tína ber sem aldrei fyrr. Úfff allt blátt og svart af berjum og það ekkert smá stórum og girnilegum.  Ef ég hugsa lengra aftur í tímann þá einhversstaðar kemur upp minning um snjó þegar skólinn byrjaði á haustin og mamma hefur sagt mér hvað hún var fúl sem krakki ef það var snjór á afmælinu hennar, hún er fædd 1. sept þannig að september hefur haft allan gang á þessu í gegnum árin.

Í gær fórum við dætur mínar í berjagönguferð upp með á, þetta endaði reyndar í lengri ferð en við hugðumst í fyrstu og mikið ævintýri þótti þeim að geta sagt við heimkomu að hafa vaðið yfir tvær ár, gengið dali og upp á hlöss og fundið helling af berjum.   Erla hringdi í móðursystur sínaTounge langaði að deila með henni fegurðin og kyrrðinni á dalnum.  En mér vakti það furðu að það næst GSM á dalnum, ekki að ég sé að kvarta síður en svo og frábært að hafa samband þarna ekki síst þar sem þetta svæði er notað mikið að vetri af vélsleðamönnum. En í sumar þegar ég var á ferð um landið þá var ég vör við að það er ekki GSM samband víða og það á þjóðvegum og alfaraleiðum  þar sem ég fór.   Er þetta ekki að einhverjum hluta sveitarstjórnarmál?  Eitthvað rámar mitt höfuð í kynningarfundi og skipulag með einhverjum sem fóru um landið og höfðu eitthvað með þetta að gera.  Verð að grafa upp dagbókin frá síðustu árum og fletta uppá þessu.

Eins og einhverjir hafa orðið varir við þá hef ég staðið í kolamokstri ,eitthvað svona smá sko, í gærkveldi sem sagt gróf ég eftir kolunum aftur og náði í einn stamp handa vini mínum Jóni Þorsteinssyni söngvara með meiru. Það var gaman og við systur skemmtum okkur vel og bíðum eftir að Nonni komi heim í frí frá Amsterdam.

Hér var líka heljarinnar partý á laugardag og fram á kvöld. Önnur dóttirin sem er á þröskuldi unglingsára átti eftir að halda afmælispartý fyrir félagana.... og það ekkert smá.  Vorum svo heppnar líka að við fengum Sigurlaugu og Matthildi til okkar snemma dags og gátum lofað þeim að fara með okkur að sjá Kol synda í vatninu, notuðum tækifærið og böðuðum kappann í leiðinni.  Héðinn og Matta komu þegar þau voru búin í berjamó, allir í berjamó enda ekki hægt annað.Grin  Fallegu dætur þeirra komu líka og hjálpuðu mér með afmælið og að fóðra afmælisgesti á pizzum og frönskum,, namm namm og í eftirrétt gerði húsbóndinn ávaxtagúmmelaði með ís og heitri súkkulaðisósu.   Bróðurdætur mínar eru alltaf á barnsaldri fyrir mér,Halo  þær eru reyndar komnar um og yfir þrítugt og löngu vaxnar lágvöxnu föðursystir þeirra yfir höfuð.  En þær eru ægilegar dúllur þessar elskur og alltaf jafn gaman að hitta þær. 

Á eftir fer ég í tónskólann, mikið er það hressandi fyrir sálina og mæli með að fólk leggi hljóðfæraleik fyrir sig og spili reglulega. Kennarinn minn er ægilega hress og við hlæjum stundum meira en spilum, en það er allt í lagi.

Kveðja í dag og flýtið ykkur í berjamó áður en frystir.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjargfrúin

Höfundur

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Frúin á Bjargi hefur skoðanir á öllu :)
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1290_826126
  • ...dscn1290
  • Mynd032
  • Mynd031
  • IMG 4297

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 30208

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband