Færsluflokkur: Dægurmál

Kolafarmurinn

Helgin hefur verið annasöm og verða viðburðir hennar lengi í minnum hafðir hjá fjölskyldunni.

Við byrjuðum á laugardag með vinnuhelgi í Sólheimum, við bróðir minn mættum með hina helmingana af okkur og tókum til hendinni.  Það má með sanni segja að mér er mikið létt að hafa komið þessu frá mér og hreinsað til það sem þurfti.  Við réðumst á geymsluna undir pallinum, tókum til norðan við húsið og kíktum í kjallarann, en hann verður reyndar látin bíða eitthvað lengur enn um sinn þar til nýja eldhúsið Smile þeirra Stubb og Lubb verður komið upp. Það sem við hentum var  ýmislegt  sem sumir telja drasl en aðrir sjá notagildi þess eða sóun að farga því, keypt og brúkað áður en dalaði uppi úr sér gengið og slitið, annað var aðdregið eða tekið til geymslu þegar aðrir sáu ekki notagildi þess lengur.  Ekki veit ég  t.d. hvað hefur átt að gera við 3 olíufötur af lýsi, það verður gátan óleysta nema að hún upplýsist eitthvert kvöldið þegar barnabörnin hans föður míns sitja miðilsfund hjá Þórhalli.  Systir mín lýsti því samt yfir að þessi tiltekt væri helgispjöll, ég bauð henni  að það væri ekkert mál að sækja gömlu þvottavélina hennar út í gám aftur og koma með heim á pall til hennar, hún gaf lítið út á það nema að reka út úr sér tunguna framan í mig.Tounge 

Ég komst líka að því að mýs vinna frá sjö til sjö og á laugardögum líka, norðan við húsið var lítið geymslupláss þar sem geymd voru gömul net og kaðlar ásamt ýmsu öðru, svona ef það þyrfti að nota það. Þetta höfðu þessar elskur allt saman nagað í smá bita og það var gaman, ég segi það, að sjá hvað þær af eljusemi vinna sitt verk dag eftir dag.  Svörtu litlu örðurnar sem eitt sinn hafði verið ruslapoki, spænir, nælonþræðir og annað. Þetta er eina sem ég hef séð mýsnar við Sólheima eyðileggja og þó ekki. Þær vissu að þetta yrði aldrei notað og voru aðeins að flýta fyrir niðurbroti. Mýsnar heima hafa nefnilega aldrei gert árás á neitt sem við áttum eða reynt að komast inn til okkar.  Mamma gaf þeim alltaf úti og sagði að amma hennar hefði sagt að ef þú gefur þeim þá láta þær þitt í friði. Mamma setti mat við holu í barðinu bak við húsið og ég man eftir henni henda brauðmolum út um eldhúsgluggann þegar hún sá þær á pallinum.  Hann pabbi var nú ekki eins hrifinn af að mamma fóðraði mýsnar, hann var satt að segja dauðhræddur við þær.Kissing

Bak við óðalið okkar í sveitinni var stórt kar úr járni, þar ofan á voru girðingarstaurar sem pabbi hafði höggvið úr rekaviði, þegar málið var athugað nánar  kom í ljós að kerið góða var hálf fullt af kolum.  Á þetta ker réðumst við Héðinn bróðir í gær og mokuðum kol í nokkra tíma ásamt dætrum mínum.  Ég verð að segja að mér varð hugsað til kolanámumanna við þessa iðju mína.  Kolaryk er svo fínt að maður var svartur innan sem utan eftir þessa iðju, enda var ljúft að komast undir sturtuna í gærkveldi.  Ég hirti tunnu af góðum kolum, veit ekki til hvers svo sem, restinni bauð ég góðfúslega Óskari og Adda sem voru að taka til hendinni á Ytri - Á.  Þeir þökkuð mér góðfúslega en höfnuðu góðu boði.  

Nú á ég aðeins eftir að skrúbba smá geymsluna undir pallinum og pallinn sjálfan, taka aðeins saman kring um húsið og þá verður þetta tilbúið undir veturinn.  Við Héðinn förum svo í leiðangur og kaupum gott bensínorf, ég er ekki lagin með orf og ljá, þeir gripir verða eflaust ekki notaðir oftar til að slá lóðina kringum Sólheima. 

Það er fallegt veður í Ólafsfirði í dag, spegilsléttur sjór og sólin baðar Kleifarnar eins og oft áður. 

 

 

 


Fallegur dagur

Í Ólafsfirði er dagurinn í dag fallegur, það á reyndar við um flesta daga hér norður á hjara veraldar.  Annars held ég að það sé fallegt hvar sem er bara ef maður er sáttur við lífið og tilveruna.  Ef ég  fer vitleysu meginn  t.d. fram úr rúminu á morgnanna þá hef ég tekið strax eftir því hvað mér finnst eitthvað grámyglulegt úti og hef allt á hornum mér út í allt og alla.  Svo hefur það líka komið fyrir að ég hef farið fram úr réttu megin og sé samt ekki þessa fallegu vídd í kringum mig.  En oftast eru þó dagarnir þannig að ég er viss um að ég bý á besta stað á landinu.Grin  Ég hef haft viðdvöl til búsetu á nokkrum stöðum og kunni alltaf vel við mig þar sem ég bjó um mig.  Að undanskyldu þó einni nótt í mígandi rigningu á tjaldstæðinu á Búðardal, satt að segja ekki getað litið þann bæ réttu auga síðan.   Það er eflaust ekki marktækt um ágæti Búðardals að dvelja þar eina nótt í tjaldi og það í rigning, með réttu hefði ég átt að gefa bænum tækifæri heldur en rjúka burt í fússi hundblaut og vindbarin.

En hér í fallega bænum mínum er logn og blíðskaparveður, fólk á gangi og einhver ró yfir öllu. Ég sé trillu stíma út á fjörðinn og einhverjir eru mættir á bryggjuna að veiða. Ég er að undirbúa mig fyrir vinnudag á Kleifunum við óðal okkar fjölskyldunnar, heyrði í bróður mínum áðan og hann er á leiðinni frá Akureyri.  Frétti ekkert frá Stubb og Lubb þeir eru eflaust ennþá sofandi eftir næturdjamm eða menningarinnsog  þarna í höfuðstað norðurlands.

Það er misjafnt hvað fólki finnst, sumir njóta fámennis en aðrir geta ekki hugsað sér annað líf en að búa í fjölmenni.  Ég held að lífið snúist samt ósköp líkt hjá okkur flestum, það er heimilið sem er miðpunkturinn og þar líður okkur best.  Mér líður líka rosalega vel í berjamó og er heppin að því leit að ég þarf ósköp stutt að fara til að ná mér í ber út á skyrið.  Fer örugglega oftar í berjamó en höfuðborgarbúar en þeir fara því sem nemur oftar í Bónus Gasp snýst þetta ekki allt um að ná sér í eitthvað gott í gogginn.

Njótið dagsins í dag.


Blessuð sé minning Keiko

Ekki vissi ég að kvíin væri enn til staðar í Vestmannaeyjum.  Til hvaða brúks hefur hún verið notið síðan Keiko fór?

Annars var dvöl Keiko hið mesta ævintýri og hugmyndin var upphaflega með veru hans að draga þúsundir manna til Vestmannaeyja. En úti var ævintýri og Keiko stakk af til Noregs og sló þar í gegn.  Svona fer þetta stundum.Woundering 

 


mbl.is Eldur logaði í Keikókvínni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða bull er þetta !!!

Ég sat hér áður mörg ár sem bæjarfulltrúi, formaður bæjarráðs og sinni enn sveitarstjórnarmálum og það þarf ekki að segja mér að bæjarstjórnin hafi ekki getað hnikað til fundi eða komist að samkomulagi  við vegagerðina um að færa þennan viðburð örlítið til. Hér er greinilega eitthvað annað á ferðinni en fram kemur í fréttum.  Eiginlega verð ég að segja að mér finnst þetta bæjarstjórn og vegagerð ekki til sóma og virðingarleysi gagnvart íbúum á svæðinu.  Og hvað með það þótt fjórðungsþing hafi verið á Reykhólum daginn eftir, það er vinna að vera bæjarfulltrúi og maður er tilbúinn þegar skyldan kallar enda býður maður sig ekki fram öðruvísi en sinna bæjarfélaginu sínu.  Bæjarstjórn Ísafjarðar gat alveg sinnt þessu tvennu á sama degi og það eru nú varafulltrúar líka til staðar til að hlaup inn ef svona stendur á.
mbl.is Bæjarstjórnin gat ekki mætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að hafa áhyggjur af þessu

Það hlýtur að koma að því að toppnum er náð og ekki þörf á meira húsnæði í bili.  Maður les og heyrir í fjölmiðlum að atvinnuogskrifstofuhúsnæði standi autt í þúsnunda fermetrum talið. Eru þetta þá yfirleitt sömu fyrirtækin og skrifstofurnar sem flytja sig milli staða?

 Gott að búa í Ólafsfirði þar þarf ég ekki að hafa áhyggjur af yfirfullum götum af bílum hvað þá að ég þurfi að drattast heim á hraða hænufets í umferðinni.

En hvernig sem á það er litið er best að jafnvægi haldist í borg og byggð.


mbl.is Íbúar hræðast aukna umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamagangur á Kleifum

Þessa dagana er líf á Kleifum, það er verið að endurbyggja gömlu rafstöðina.  Það var ljúft að sitja í haustsólinni á pallinum á Sólheimum og heyra hamarshögg og köll smiðanna sín á milli.  Það eru bílar við hús og líf þótt komið sé fram í september, að vísu fóru þau í Árbæ suður í dag.  Það var alltaf og er enn þessi söknuður þegar þau eru farin á haustin, frænka hringdi síðan í mig í kvöld til að láta vita að ferðin suður hefði gengið vel. Ég á von á því að það verði mannmargt þarna út frá um helgina.

Ég athugaði með ofnana í Sólheimum og það var allt í stakasta lagi, hann mágur minn hefur verið að vinna við að skipta út krönum og laga miðstöðina  en nú er hann kominn í húsbóndaorlof út á sjó næstu vikurnar. Ekki veitti af eftir streðið við miðstöðina að skella sér í orlof út á ballarhaf. Ég er búin að stefna bróður mínum á Kleifarnar um helgina til að taka til og henda rusli, það verður mikið púl og nokkrar ferðir með fulla kerru af drasli í ruslagámana. En hann er endurnærður hann bróðir minn enda búinn að vera í húsbóndaorlofi á frystitogara síðustu fjórar vikur og getur þrælað smá í óðalinu okkar  núna. Húsbóndanum mínum þræla ég einnig út til þarfra verka, er með lista ofaní skúffu sem hann er reyndar ekki enn farinn að sjá.Tounge  Það er svo allt önnur saga með krúttin þarna systursyni mína, ég held ég fari að setja dagsektir á þá hvað og hverju, annars var þarna sígjammandi litli fuglinn að segja mér rétt í þessu að þeir væru á leiðinni að vinna eitthvað í eldhúsinu. Hmmmm veistu þú hvað það gæti verið?????

Ætli ég fari svo ekki í berjamó eitthvað upp á stekk á meðan, ófært að láta öll þessi ber fara til spillis.


Fallega haustblómið mitt

Ég á svo fallegt blóm úti í garði, það blómstrar aldrei fyrr en í september og ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé þessi fjólubláu fallegu blómstur. Grin 

Annars er það helst á dagskrá að drífa sig í berjamó áður en fer að frysta, víst allt blátt af berjum og hálfgerð skömm að láta þetta fara til spillis. Því segi ég " Allir í berjamó og hana nú"


Dagurinn hennar mömmu

Í  dag á hún mamma afmæli, hún er 87 ára.  Eins og áður munum við gera okkur glaðan dag og ég hef undirbúið Sólheima í tilefni dagsins.  Í gærkveldi fór ég og tók til og núna býður eftir henni hvítdúkað borðstofuborðið með sparistellinu þegar hún kemur heim.  Mamma dvelur á Hornbrekku dvalarheimili fyrir aldraða hér í Ólafsfirði. Þar líður henni vel, enda ekki annað hægt þar sem starfsfólkið er frábært og alltaf eitthvað í gangi fyrir vistmenn.  Stundum bregðum við okkur á rúntinn ef hún er eitthvað leið  og þá er komið við í sjoppunni og mamma kaupir pylsu með öllu sem er  hennar uppáhald. Við hlustum á KK og Magga  þeir hafa einstakt lagaval sem hittir beint í mark hjá dömum eins og henni. Og þegar við erum búnar að rúnta smá þá er mamma komin í sólskinsskap og syngur með.

Mamma fæddist í torfbænum á Kvíabekk og sagði Petrea móðursystir hennar mér oft frá þeim degi þegar hún fæddist. Þá var Petrea 12 ára og mamma var alltaf mikið í uppáhaldi hjá henni.  Þær systur Anna amma og Petrea voru í heyskap ásamt  fleirum og amma var kasólétt, allt í einu hljóp hún heim að bæ og þegar Petrea kom heim nokkru síðar var fædd dama.  Amma Anna var alltaf hlaupandi og hefði örugglega hlaupið nokkur maraþon ef hún væri uppi í dag, það eru ótrúlegar hlaupasögurnar af henni og alltaf var hún tágrönn og spengileg fram á síðasta dag þá komin hátt í 100 árin.

Það voru sannarlega ekki jafn mörg tækifæri fyrir fólk hér áður og er í dag.  Við systur segum t.d. alltaf að ef mamma hefði átt þess kost að ferðast út um allan heim líkt og ungt fólk í dag, þá værum við ekki til.  Mamma elskar ferðalög og fær ótrúlegan fiðring í sig sem hellist yfir hana þegar hún vill fara á flakk.  Hún er félagslind og hefur alla tíð liðið best innan um sem flest fólk og á ferðalagi. Það voru ekki lík hjón þannig séð foreldrar mínir,  pabbi undi sér best heima og fannst alveg nóg að koma að bryggju í öðrum bæjarfélögum annað þyrfti hann ekki að sjá. Þó það breyttist síðari ár og ferðuðust þau víða um landið með vinafólki sínu. 

Mamma er sjálfstæð í hugsun og framarlega í kvennaréttindabaráttu.  Hún starfaði mikið með kvenfélaginu hér og á Eyjafjarðarsvæðinu.  Ekki skildi ég þegar ég var unglingur hvað hún var alltaf að gera á þessum fundum og þingum sem hún fór á og konur ræddu og áliktuðu meðal annars  um álver við Eyjafjörð.   Þessi umræða var þá komin fyrir meira en tuttugu árum og kvenfélagskonur voru mjög á móti álveri hér á svæðinu.  Enda enn í dag fyllist hún krafti og nær sér upp ef einhver minnist á álver við Eyjafjörð.  Ég þekki ekki til starfa kvenfélaga í dag og hef aldrei reyndar verið í félaginu. En ég held það væri vettvangur að skoða hvað þessi félög gerðu og hvað konurnar sem störfuðu  þar áður höfðu mikil áhrif á samfélagið.  Þarna hittist hópur kvenna með ólíkan bakgrunn og ólíkar pólitískar skoðanir en komu svo ótrúlega miklu í verk.  Og trú hef ég á því að þær umræður sem urðu þeirra á milli þegar konurnar komu saman hafi skilað sér út í þjóðfélagið, það er nefnilega með konur að þær vinna oft stærstu verkin baka til án þess að vera í fremstu víglínu.  Margur hélt nefnilega ranglega að þær væru aðeins að  prjóna sokka og undirbúa basar á þessu fundum.    Þar held ég að margur karlinn hafi misreiknað sig, konur geta nefnilega bæði prjónað og rætt um háalvarleg mál samtímis.Tounge

Og mamma gerði margt í einu, sat og prjónaði dúka, réði krossgátu og horfði á sjónvarpið og hún vissi nákvæmlega alltaf hvað var að gerast í kringum hana líka. Mamma mín til hamingju með afmælið og þó þú sért ekki eins virk á öllum sviðum og þú varst áður þá ertu enn sú alklárasta.


Elsku Kolur minn

Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að fallegir, elskulegir, hreinlegir, dekstraðir á allan hátt og uppáhaldshundar geta verið svo asnalegir  að velta sér upp úr hrossaskít eða einhverju þar af verra lyktandi. Ég er ekki að botna þetta, veit að hún systir mín tæki ekki í mál núna að bjóða Kol mínum gistingu.  Vorum að koma af Kleifunum og einhversstaðar hefur þessi elska komist í þvílíkt ekki bjóðandi til að velta sér upp úr og bera með sé inn í hús að nú fer hann í sturtuna.  Annars er Kolur minn svo skrítinn að hann vill frekar láta þvo sér úti með garðslöngunni heldur en fara í sturtu í fína baðherberginu mínu.   Hann hleypur um mýrar og skurði, syndir í vatninu og sjónum en sturtan það er bara eins og ég ætli að leiða hann til aftöku.   Æi ræfillinn nú læðist hann burt skríðandi með veggjum og veit alveg að hann á að fara í bað. Devil

Nú allt þetta eigum að baki

Nú allt þetta eigum að baki

og unum í minninga veldi.

Við biðjum að hollvættir vaki

hér vinir að hinsta kveldi.

Einhvernvegin finnst mér þetta síðasta erindi í ljóðinu "Minningar frá Kleifum"  eftir Jón Árnason frá Syðri - Á , eiga við í dag þegar ég kveð Boggu á Búðarhól eins og hún var kölluð.  Bogga sagði mér ýmsar sögur frá Kleifum, hún sagði mér frá því þegar dansað var í Mánahúsinu niður við bryggju. Þá var kerjum og dóti ýtt upp að vegg og dansinn dunaði við harmonikkuspil fram á nótt. Hún sagði mér sögur af konunum á Kleifum, þær hittust hjá hvor annarri og spjölluð yfir kaffibolla og bakkelsi annað slagið hjá hvor annarri. Eitt sinn mundi hún ekki að hún var með næsta kaffispjall og var ekkert búinn að undirbúa sig með bakstur, þá greip hún soðnar kartöflur og setti í lummudeig og viti menn þetta sló í gegn. Hún sagði mér frá matargerð, kjöt var soðið niður, sultað rabbabara og ber, súrsað og verkað til vetrarins. Blóm í gluggum og skipst á afleggjurum og ráðlagt með saumaskap því vitaskuld voru  öll föt heimasaumuð.   Það var gaman að fá að heyra sögurnar  hennar Boggu, man að hún sagði mér líka frá óléttukjólum sem hún og Ólína saumuðu á sig, sama snið en sitthvor litur. 

En stóran skugga bar á Kleifarnar þegar þegar Þorkell Máni fórst og það sat í Boggu. Þar missti hún eiginmann  sinn og barnsföður og hún sagði að Kleifarnar hefðu aldrei orðið eins aftur. Bogga fann ástina aftur og bjó á Búðarhól og síðar í bænum. Alltaf fór maður sprengsaddur frá henni af bakkelsi og sögum.

Ég dró upp fánann í Sólheimum og aðrir voru að flagga á hinum bæjunum, á leiðinni heim kom ég við hjá Ásgerði systur og dró hennar fána. Okkur Ásgerði er minnistætt þegar Bogga var að koma í hríðarbyl að kíkja á okkur, svona í leiðinni þegar hún fór að gefa rollunum sem hún hafði í fjósahverfinu.

Í dag er fallegt veður og Kleifarnar skarta sínu fegursta og kveðja enn einn vin, en minningin lifir meðal okkar hinna sem gætum að þær glatist ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjargfrúin

Höfundur

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Frúin á Bjargi hefur skoðanir á öllu :)
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1290_826126
  • ...dscn1290
  • Mynd032
  • Mynd031
  • IMG 4297

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 30208

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband