Færsluflokkur: Dægurmál
29.8.2008 | 21:40
Ég flýtti mér heim í nótt á
undan vonda veðrinu, og má með sanni segja að það hafi verið lognið umtalaða á undan storminum sem ég keyrði í gegnu um á leiðinni heim. Veðurblíðan var með eindæmum og næturfegurðin upp á sitt allra besta, margir litir skörtuð í ljósaskiptunum út við sjóndeildarhringinn. Ég setti disk með Smokie í spilarann, alltaf þegar ég hlusta á þessi lög þá fer hugurinn til nöfnu minnar og sumarið sem hún dvaldi hjá okkur. Við vorum ótrúlegar þetta sumar, sváfum mest af sumrinu úti í tjaldi og hlustuðum á Smokie öll kvöld. Á daginn unnum við í frystihúsinu eins og allir aðrir krakkar í sjávarplássum á þessum tíma. Nafna mín kom reyndar frá Reykjavík í sumadvöl til okkar til að geta unnið í frystihúsinu. Við vorum 12 og 14 ára og það var unnið frá átta á morgnanna og til kvölds stundum eftir kvöldmat líka. Og ef maður mætti ekki þá var hundleiðinlegt því allir vinirnir voru þarna. En nú er ekkert frystihús i Ólafsfirði og er það miður held að allir sem unnu þar sem unglingar geti verið sammála um að það var gaman.
En það var gaman að hafa nöfnu mína hjá okkur, okkur kom svo vel saman og alltaf að fíflast eitthvað. Eins og við gerum þegar við hittumst enn í dag. Og ég hlusta á Smokie og finn Kleifalykt sem er sú besta í heimi eins og allir vita.
Það er gott að vera komin heim, er búin að ferðast og útilegast ótrúlega í sumar og veðrið alltaf alveg yndislegt. En vitið hvað, ég missti af Bumba þegar hann kom í heimsókn þessi elska, rétt hitti hann í Kaupfélaginu og svo reyndi hann ítrekað að bjóða okkur systrum og mömmu í kaffi og alltaf vorum við að útilegast eða eitthvað. Ferlegt bara en svona fer þetta stundum og koma dagar og ráð aftur. Elsku Nonni ég fæ mér bara kaffibolla í hugsa til þín.
Kveðja að sinni
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.8.2008 | 22:58
Blátt lítið blóm eitt er
Blátt lítið blóm eitt er,
ber nafnið "Gleymdu ei mér"
væri ég fleygur fugl,
flygi ég til þín.
Svo mína sálu nú,
sigraða hefur þú,
engu ég una má,
öðru en þér.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.8.2008 | 22:56
Upp og niður
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.8.2008 | 23:43
Þegar rökkva tekur á ágústkvöldi...
Eitthvað er ég ægilega viðkvæm á þessum fallegu kvöldum sem eru núna, þau minna mig svo á vin minn sem ég missti allt of fljótt. Vinur minn átti þann fallegasta og ævintýralegasta garð sem ég hef nokkurn tímann séð, litlu húsin sem hann smíðaði og allir litlu smáhlutirnir innan um gróður og blómstrandi plöntur gerðu garðinn hans að sælureit. Á fallegum kvöldum þegar fór að dimma þá kveikti hann á kertum um allan garð, hengdi luktir í trén og í hverju smáhúsi logaði ljós, fólk gat ekki annað en stoppað til að horfa og gleyma sér við þessa Paradís sem hann hafði skapað.
Vinur minn gat allt og var með augu sem sáu fegurðina í öllu, allt varð fallegt sem hann lék höndum um, smíðar, föndur, saumar, matseld, skreytingar og hvað sem var. Hann var yndislegur maður sem maður gat hlegið með og kjaftað út í eitt yfir kaffibolla. Nú myndi hann slá mig í hausinn ef hann sæi mig skrifa þetta fannst svona skrif væmin hehe
Ég horfi á fallega ágúströkkvið út um gluggann og hlusta á "Skrifað í sandinn" í huganum með vini mínum en það var eitt af hans uppáhaldslögum.
Njótum hvors annars meðan tími er til við vitum ekkert hvenær hann er liðinn.
Góða nótt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.8.2008 | 15:52
Ég kom að þeim...
Ég gekk fram á þau þar sem þau lágu þétt upp við hvort annað, líkt og þau hafa gert síðustu ár, alltaf jafn ástfangin og trygg hvort öðru. Aðeins fer henni þó aftur með ári hverju, lúin og farin að láta á sjá. En hann stendur við hlið hennar alltaf jafn hnarreistur, þar til yfir líkur og hún hvílir sem mold við hlið hans um ókomin ár.
Síðan ég man eftir mér hef ég séð þau saman, fyrst stóð hún við hlið hans alla daga, há, fögur og vel máluð, þar til Kári feykti henni um koll í einum ofsanum og síðan hefur hún legið út af. Fyrstu árin sem hún lá þarna við hlið hans var hún jafn fögur og áður, og þessi sjón var ekki síðri, að líta þau saman, hann hár og stæltur og hún liggjandi við fætur hans.
Ekki veit ég hvað þeim hefur farið á milli öll þessi ár en eflaust hafa þau haft næg umræðuefni, þótt ekki væri nema um mannlífið fyrir neðan þau neðst í dalnum og ástarlíf vinkonu þeirra sem leggur á sig ferð dag hvern til að eiga ástríðufull stefnumót við Ægir þar sem þau verða eitt aftur og aftur á sama stað og síðast.
Hér áður velti ég því fyrir mér hvernig fundum þeirra tveggja hefði borið við, hver hefði verið þess valdur að hún lenti þarna hjá honum en aldrei fann ég nein svör og enginn kannaðist við hana né hvaðan hún kom. Falleg þar sem hún stóð og tilhöfð í byrjun má sjá að henni var ætlað annað hlutverk en einhverra hluta vegna lenti hún þarna og varð eftir. Eflaust hefur sá sem réð för hennar áður ætlað að sækja hana síðar en fundið aðra hentugri eða ekki lokið verkinu.
Ég sé að hún verður horfin löngu á undan honum og upp af moldu hennar mun vaxa fallegur fífill og berjalyng í skjóli hans sem mun aldrei gleyma henni sem var honum samferða öll þessi ár. Ég mun halda áfram að vitja þeirra og ef hún hverfur á undan mér munu ég setjast niður hjá honum á góðviðrisdegi og segja honum frá kostum hennar og fegurð og hvað þau voru alltaf falleg saman. En þar sem það er langt þangað til þá ætla ég að fá mér ofurlítinn blund í lautinni sunnan við stekkinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2008 | 18:49
Selkjöt í karrý
Í dag lá leið mín í stórann frystiklefa með vini mínum þar sem við vorum að athuga væna lambskrokka sem hann ætlaði að saga niður. Og mitt á gólfinu sá ég nokkra seli, vitaskuld dauða og beinfrosna, en þarna stóð ég og yfir mig helltist löngun í selkjöt í karrýsósu. Ég hafði orð á þessu við vin minn og hann var alveg sammála mér að selkjöt er reglulega góður matur, eflaust hefur þetta eitthvað með uppeldið að gera en við erum bæði alin upp í litlum sjávarplássum.
Þegar ég hugsa um það þá er margur matur sem hefur horfið af borðum sem var sjálfsagður hér áður, ufsabollur og karfabollur hef ég ekki smakkað í mörg ár. Karfa sé ég ekki lengur og er það leitt þar sem hægt er að matbúa hann á ýmsa vegu og var hann einn af mínu uppáhaldi. Saltfiskur er ekki aðgengilegur líkt og áður og liggur við að það séu jólin þegar maður hefur verið svo heppin að komast yfir nokkur stykki.
Í fréttum í dag hefur mátt heyra frá hvalreka í Ólafsfirði og hafa margir lagt leið sína að skoða ferlíkið. Ef ég verð spræk eftir holulambið hjá mági mínum í kvöld má vel vera að ég leggi leið mína út eftir og kíki á hann. Frétti að það er búið að festa hann og á eflaust að reyna að fjarlægja hræið á haf út. Einhvertímann var hvalreki happafengur og mátti bræða spikið og það nýtt sem hægt var af honum, nú er hvalreki vandamál og þykir enginn fengur.
En hvað um það ég er með hugann við selkjöt í karrý og þó að ég viti að holulambið á eftir slái þann rétt út þá held ég að ég fari í að verða mér út um flís af selkjöti til að elda á næstu dögum.
Verði mér að góðu
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2008 | 13:36
Næturgisting fyrir látna
Líkhúsdvölin á við nótt á hóteli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2008 | 00:43
Bryggjublús
Það er gaman að horfa yfir á hafnargarðinn í Ólafsfirði á jafn fallegu kvöldi og er núna. Ég bý við höfnina og er eins og í stúkusæti þegar ég sit við eldhúsgluggann og horfi út. Það er urmull af fólki að veiða kvöld eftir kvöld og má segja að þarna unir sér fólk á öllum aldri að draga fisk að landi.
Dætur mínar og frænka okkar sem dvelur hjá okkur hér " í sveitinni" eins og hún segir, fóru að veiða í kvöld. Mér varð litið út um gluggann og sé að þær hafa fest spúninn í dekki á bryggjunni og er ein þeirra að klifra niður og reyna að losa, ég vippa upp glugganum og kalla yfir til hennar að koma sér upp þetta sé bannað og hún var ekki lengi að snara sér upp. Ég hugsaði á eftir að þetta hlyti að vera ægilega heimilislegt, það er svo kyrrt að það glumdi í Bjargfrúnni um allan fjörð. Sá að útlendingar sem voru þarna að veiða litu upp en létu sér fátt um finnast, örugglega Ítalir því þótt þeir skyldu ekki málið þá skyldu þeir að þarna var "mamma" að kalla. Veiðin var góð hjá þeim frænkum þrjár ýsur og einn þorskur, sem þær síðan slægðu og fengu hjálp við að flaka þegar þær komu heim. Nú er veiðin komin í frysti og er verið að safna í fiskibolluhlass með haustinu.
Skrapp á Kleifarnar og það var aldeilis líf og fjör þar og ekki sýndist mér að fólk væri á leið í háttinn, enda ekki komið á Kleifarnar til að sofa. Einhverjir voru á sjó og aðrir að njóta þess að vera til. Út um eldhúsgluggann minn sé ég ljós í Árgerði og það er notalegt að vita að nú er líf í húsi afa og ömmu.
Góða nótt
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.7.2008 | 17:02
Hvíld í dag svo sannarlega
Dagurinn í dag er fallegur milt veður og hlýtt og einhvern veginn ró yfir umhverfinu. Ég verð að játa að ég svaf langt fram yfir hádegi og mikið er gott að láta þreytuna líða úr skrokknum í góðum draumi. Í kvöld ætla ég að fá fólk í mat og það verður gaman að sitja yfir pottrétti úr kjötinu góða sem Ásgeir Logi gaf frænku sinni. Við frændsystkinin hlógum mikið þegar hann kom með kjötið til mín úti í Norlandia um daginn, síðan sóttum við saltfisk í poka og þar sem ég kjaga með kjötpokann í annarri hendi og fiskpokann í hinni þá verður mér að orði að ég sé bara alveg eins og Petrea og Stína Rögnvaldar þegar þær voru að burðast heim með mat. Önnur þeirra var amma hans Ásgeirs og hin systir hennar og þessar dásemdar konur voru ömmusystur mínar. Vini mínum varð að orði að einhvers staðar frá hefðum við þessa áráttu að draga allt heim.
Oft hef ég séð hvað þessi frumþörf að afla matar til heimilis er sterk ennþá í okkar nútíma þjóðfélagi. Fólk upplifir sig öðruvísi á t.d. veiðum, í sláturgerð, í berjamó, gera að fiski, standa við útigrillið, og fleira. Það er eins og við tengjumst náttúrunni og finnum okkur sjálf meira sem manneskjur með tilgang heldur en í öðrum verkum. Meira að segja að vera drullugur upp fyrir haus er eitthvað sem hendir af okkur grímu sem við erum svo gjörn á að burðast með. Eitthvað er þetta við mold og leir og vatn, t.d. finnst börnum ekkert jafn gaman og að sulla í drullupollum og fullorðnir geta legið tímum saman í skurðum og beðið eftir færi á að veiða eitthvað, aðrir liggja í leirböðum á heilsuhælum og síðan er voða gott að klína einhverslags drullumaska á andlitið. Maður verður alveg endurnærður og yngist um 10 ár minnst.
Hafið góðan dag og sleppið ykkur annað slagið í drullupyttinn.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008 | 00:46
Ofurkappinn Benedikt
Það er sannarlega ástæða til að fagna með Benedikt og óska honum til hamingju með áfangann. Aldrei að gefast upp og reyna aftur og aftur þar til settu marki er náð, við getum lært margt af honum Benedikt, hann er frábær maður. Til hamingju
Tókst að synda yfir Ermarsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Bjargfrúin
Bloggvinir
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar