Færsluflokkur: Dægurmál

Fullkomið

Ég var að vinna í dag eins og aðra daga, tók daginn snemma og vann við fyrirtækið mitt fyrir hádegi og fór síðan í hina vinnuna til kl.16.00  Í hádeginu erindaðist ég fyrir aðra manneskju sem er í viðskiptarekstri og greiddi úr smá máli sem upp kom hjá henni.  Eftir vinnu fór ég í sturtu, blés hárið, málaði mig og klæddi mig í pils, nælonsokka og bol.  Fullkomin í útliti og klæðaburði settist ég með nýlagað kaffi við tölvuna og las nýjustu fréttir til að geta verið viðræðuhæf við samstarfsfélaga á morgun.  Eftir afslöppun við tölvuna og endurnærð af kaffinu, hnoðaði ég í gerbollur sem ég hugðist bera fram með kvöldmatnum.

 Meðan deigið hefaðist fór ég í gönguferð með hundinn upp á Skeggjabrekkudal, veðið var dásamlegt og hitti ég nokkra kunningja á dalnum bæði var fólk þar í útreiðatúr eða eins og ég að slappa af og viðra hundinn.  Ég ræddi framtíð Fjallabyggðar, skipulags og umhverfismál í þessum göngutúr við félaga sem ég hitti á dalnum.

Þegar heim kom tók ég deigið og dóttir mín hjálpaði mér að koma því í bollur á plötur, ég notaði tímann og hræði í skúffuköku á meðan, ofninn var hvort sem er heitur.  Mmmmm ilmurinn var dásamlegur sem lagði um húsið og á meðan brauðið bakaðist lagaði ég í makkarónugratín sem ég stakk í ofninn þegar hitt var bakað.  Ég lagði á borð skar salat, gekk frá og það passaði þegar gratínið var tilbúið  þá var eldhúsið gljáfægt og hefði sómt sér á forsíðu hvaða tímarits sem er. Fjölskyldan kom og við áttum notalega stund við eldhúsborðið dóttir okkar bauð þremur vinkonum óvænt í mat en það var nægur matur að sjálfsögðu  og blessuð börnin dásömuð matinn hjá mér.  

 Já og ég gleymdi að segja frænka mín kom líka í heimsókn í dag með dætur sínar og meðan þær léku sér, ræddum við efnahagshorfur landsmanna og nýjustu tísku. Svo kíkti systir mín og mágur líka í heimsókn.  Og gott ef ég hef ekki sett í þvottavél og gengið frá þvotti eitthvað í dag og að sjálfsögðu gerði ég magaæfingar á meðan til að halda vextinum í formi.

Stundum les ég blogg eins og þetta sem ég hef verið að skrifa og maður hugsar vááááááááá því þetta hljómar eitthvað svo rosalega fullkomið hehheeheheTounge en svona er það, maður getur stílfært daglegt líf í flottann búning og hreykt aðeins sjálfum sér og allir halda að maður sé fullkomin.

 


Jón er kominn heim

Fór í Kaupfélgið í gær og var þar með þvílíkan brussugang, setti búðina næstum á hvolf.  Ég kalla þetta alltaf Kaupfélagið, þetta heitir víst Samkaup/ Úrval eða eitthvað álíka hallærislegt.  Og haldið að ég hafi ekki hitt hann Nonna Fríðu, þessi elska kominn heim.  Það er svo skrítið að sumir hafa svo mikla útgeislun og sterkan persónuleika að það lifnar allt í kringum þá, blóm með hangandi haus reisa sig við og tala nú ekki um okkur kellingarnar sem hálfgert missum okkur í talandanum. Tounge   Skil samt ekki hvað er alltaf verið að tala um talanda í konum, hef ekki heyrt betur  en karlmenn geti nú talað líka. 

En Jón er sem sagt kominn heim og svo er um fleiri góða farfugla, maður er umvafin endurfundum og kærleika brottfluttra vina sem leita heim á þessum árstíma. Hlátur ómar úr hverju eldhúsi. Það ertu steiktar kleinur og soðibrauð, siginn fiskur mallar í potti í hádeginu, grillað lamb á kvöldin, dorgað á bryggjunni, og allar dyr standa opnar hverjum sem vill. 

Og ég hugsa........

Það er hraði á öllum, mér finnst margur hafa gleymt að lifa, fórnað lífinu í eitthvað sem skiptir engu máli. Það er auðvelt að glepja fólk til að festast í munstri sem það heldur að það hafi valið sjálft.  Hver stjórnar hverjum, hver læðir inn fréttum og umræðum sem óaðvitandi síast inn hjá fólki.  Hver er tilgangurinn með þessu lífi annar en að njóta þess að vera saman, njóta samverunnar við hvort annað og barna okkar. Vera til, hlæja, gantast,  vera saman og lifa daginn í dag því hann er okkar.

Einn fíflagangurinn......

Ég ætla að byrja að taka til hjá mér og byrja á tryggingum, hef komist að raun um að þar hefur landinn verið hafður að fíflum út í eitt af fégráðugum tryggingafyrirtækjum.  Síðan bæta þeir inn í tryggingar hjá manni hinu og þessu og maður fær sent bréf um þetta og að sjálfsögðu hækkar tryggingin um einhverja þúsundkalla í leiðinni.   Það var maður sem fjallaði um þetta í fyrra held ég og hann var í fréttum hér fyrir einhverjum mánuðum. Ég man ekki hver þetta er og auglýsi hér með eftir upplýsingum um þennan mann.  Þetta þarf að skoða og nú sekk ég mér í tryggingamálin mín.

Gangi ykkur vel í dag.


Bindum von við Ólaf Jóhann

Ég ætla svo sannarlega að  vona að Ólafur Jóhann geti komið á vinnufriði þarna fyrir sunnan.  Það hefur verið ótrúlegt að horfa á þetta hérna utan af landbyggðinni, en svona er það þegar hver vill hafa sína skeið og pólitíkin rífur allar framfarir niður. Held að fólk geri sér ekki grein hvað pólitísk valdabarátta er búin að eyðileggja gífurlega möguleika þessa fyrirtækis.  Það er mín skoðun að innan Vinstri grænna leynast mannorðsmorðingjar sem hafa náð ótrúlegum múgæsingi hér á landi. Þetta fólk þrífst á að tala illa um fólk í nafni réttlætis og er nákvæmlega sama um allt og alla nema sjálfan sig og að það komist til valda.  Ég hef ógeð á Vinstri grænum og hvað þá þegar þeir þykjast vera að tala í nafni verkafólks, það sjá allir að þetta fólk lítur niður á verkafólk og hefur komið því frá völdum í  flokki sem var þeirra  og talaði máli verkafólks og barðist fyrir kjörum þess.  Nú má sjá upprifnar reittar hænur og sköllótta pésa spígspora með opinn kjaftinn, ropandi út úr sér óhroðnum um mann og annan.  

Gangi þér vel Ólafur Jóhann og sendum þér styrk sameinuð til að koma á friði þarna á gasasvæðinu.


mbl.is Ólafur Jóhann: Tími gífuryrða liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fór í útilegu

Við fórum heim að Hólum eins og sagt er, þar er frábært að koma og sannkölluð paradís fyrir unga jafnt sem aldna. Fengum yndislegt veður, tjölduðum í skóginum, skoðum okkur um og áttum bænastund í kirkjunni með víglsubiskup og öðru góðu fólki sem sótti þessa stund.

Margt hefur maður lesið um Hóla í gegnum tíðina og einhvern veginn hefur það alltaf loðað við að þarna sé eitthvað ægilega draugalegt Halo hehe ekki gat ég fundið það, en það er gaman að lesa gamlar bækur um Hóla og námsár manna þar, þó helst hér áður fyrr að sjálfsögðu. Sú sem skrifaði Ísfólkið sagði í viðtali að hún hefði fundið eitthvað draugalegt þarna og gott ef hún var ekki með eitthvað galdraprik með sér sem svignaði upp og niður eftir krafti þeim sem hún fann í jörðinni.  Ælti hún hafi ekki  lennt á heitavatnsæð eða klóaki.

Kirkjan á Hólum er einstaklega falleg, gömul sveitakirkja sem vissulega hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma þegar hún var byggð og einna helst að maður spái í hvað stórvirki menn unnu hér áður við byggingar með nánast ekkert nema berar hendurnar. Ekki var stórvirkum vinnuvélum fyrir að fara á þessum tíma. Eitthvað er verið að róta í jörðinni þarna í kring og reyna að finna eitthvað merkilegt, ég verð að viðurkenna að ég hef engan áhuga á uppgreftri. En þau virtust kunna vel við sig í moldinni unga fólkið sem er komið langt að til að vinna í sjálfboðavinnu við uppgröft á Íslandi.

Eitt vakti þó furðu mína, það er að í upplýsingamiðstöðinni þarftu að tala ensku því þjónustufulltrúarnir töluðu ekki Íslensku. Það þykir mér leitt vegna þess að Hólar eru einn af okkar sögufrægustu stöðum á landinu og mótuðu að vissu leiti byggð og menningu á norðanverðu landinu.Þarna er merk saga sem er áhugaverð að fræðast um og eru Hólar  sannarlega að byggja sig upp sem ferðamannastaður og ætti að sjálfsögðu að einblína á Íslendinga jafnt sem erlenda ferðamenn.

 


Einn af þessum þokudögum.

Þessi blessuð þoka sem klæðir fjöllin niður í miðjar hlíðar einn daginn enn, ég þori ekki  að hugsa neitt ljótt um hana þessa prinsessu sem var svo ólánssöm að lenda í álögum fyrir langa löngu.  Samt hefur hún verið tillitssöm síðustu daga, að seinnipart dagsh hefur létt til og þá er hér steikjandi hiti og glaða sólskin.  Stundum setur þokan verulegan strik í reikninginn hjá manni og ruglar heilu dögunum, útilegufílingur fýkur út í buskann með norðanáttinni, grillveislan sem var plönuð á pallinum á Kleifunum endar innandyra, gönguferðir yfir fjöll eru ekki til umræðu og flugferðir dragast á langinn og eru alltaf í athugun eftir klukkutíma.

Eitt sinn lenti ég í að bíða eftir að komast í flug frá Akureyri til Reykjavíkur og það var satt að segja ansi löng bið, myndi dagurinn raskast og ekkert verða úr þeim fundi sem maður var búinn að undirbúa. Og alltaf kom reglulega sms frá flugfélaginu þar sem sagt var að flug yrði athugað á næsta tíma og það var  ekkert hægt að gera nema að bíða.  Í flugið komst ég að lokum upp úr hádegi og hægt var að færa fundinn til svo dagurinn endaði vel. Smile 

Núna horfi ég á þokuna og hugsa um þessa prinsessu sem er bundin í fjötra um eilífð því henni er alltaf bölvað af einhverjum.  Kannski er maður sjálfur eins og þokan, læðist inn þar sem maður á ekki að vera og hangir yfir ekki neinu. 


Að helgi lokinni

Mikið var gaman um helginaTounge þetta gerist alltaf þegar Hringverskotsættin kemur saman.  Núna hittumst við í Ólafsfirði og það var stanslaus gleði frá föstudegi til sunnudags. Flest þetta fólk hitti ég aldrei nema á ættarmótum og það er merkilegt hvað við allir smellpassa alltaf saman strax í fjörið, enda var víst fólkið frá Hringverskoti sannkallaðir gleðipinnar.  Oft lítið til að borða, eins og víða var á þeim árum, en alltaf var hægt að gantast og hlæja. Langamma mín hét Guðrún og langafi Sæmundur, mikið rosalega mega þau vera ánægð að hafa getið af sér svona falleg börn sem uppfylltu síðan landið okkar af enn fallegri og skemmtilegri afkomendum. 

Ættarmótið var á tjaldsvæðinu og verð ég að koma því hér að hver þolinmóðir aðrir tjaldgestir á svæðinu voru við þessa sprellfjörugu ætt, aðeins eitt útkall til lögreglu og það var víst einhver óbreyttur sem kvartaði, eða höfum það þannig.Police En fjörið er búið og Bjargfrúin að jafna sig eftir hlátur helgina miklu. Úfff get ekki beðið eftir næsta ættarmóti, lán í óláni að tíminn verður alltaf fljótari og fljótari að líða eftir því sem maður eldist.

Kæru ættingjar mínir þúsund þakkir fyrir samveruna.


Að hugsa til baka.

Fyrir 12 árum að kveldi 1. júlí var ég að springa úr óléttu, man að veðrið var undurfagurt þetta kvöld og ég fór út að ganga með mömmu.   Ég var alveg búin að fá nóg af þessari kúlu og langaði aðeins að fá litla íbúann í fangið.  Við mamma gengum um Kleifarnar og hittum marga, Það var fólk í hverju húsi og einhvern veginn voru allir á ferli á þessu fallega kvöldi.  Ég fór upp og niður brekkur, brölti tröppur og gott ef ég klaungraðist ekki yfir girðingar og rak rollur af túninu.  Eitthvað hafði allt þetta brölt að segja því um nóttina lét dóttir mín vita að hún nennti ekki þessu hangsi lengur og vildi komast út.

Á þessum tíma bjó ég á Kleifunum því það var verið að laga húsið mitt, ég á gamalt hús og það átti að laga það aðeins til.  Verkið varð meira en við héldum og áður en ég vissi var búið að rífa allt út úr húsinu.  Brjóta upp gólf á neðri hæð og  fylla upp í  gluggalausan kjallara undir miðju húsinu, sem reyndar var ekki manngengur nema mýslum eins og mér. Rífa alla veggi, brjóta niður reykháf, rífa meira á efri hæð og allt í einu var húsið nánast fokhelt. Það eina sem er eftir er gamli stiginn sem ég vildi halda, hann var tekinn niður og settur upp aftur þegar búið var að steypa í gólf á neðri hæð.  Ég hafði vaska menn í vinnu og ekki síst manninn minn sem lagði dag og nótt við að koma húsinu í stand aftur þannig að við gætum flutt aftur heim.

Það er skemmtileg minnismerki á geymslugólfinu, þannig var að við áttum tvo ketti á þessum tíma og hétu þeir Viktor og Hektor,  um nóttina þegar steypan var blaut hafði annar þeirra gengið yfir gólfið í geymslunni og enn í dag má sjá loppuförin á gólfinu. Gestur frændi múrari varð alveg miður sín þegar hann sá þetta um morguninn og vildi pússa yfir loppuförin en við vildum hafa þetta á gólfinu og mér hlýnar alltaf pínu í hjartanu þegar ég sé loppuförin eftir kisa minn sem  er löngu dáinn.

Í kvöld viðrar ekki eins vel og kvöldið góða fyrir 12 árum, það er hávaða rok og rigning en ég vona að veðrið verði betra á morgun því við stefnum á stóra grillveislu á Kleifunum fyrir heimasætuna sem verður 12 ára á morgun.


Garðurinn minn

Einu sinni sem oftar átti ég dag í garðinum mínum, þessi garður sem stundum er svo  gríðarstór að mér endist ekki dagurinn til að ganga um hann allann en stundum svo ógnarsmár að ég þarf ekki að taka nema eitt skref í hvora átt og ég er komin út fyrir hann.

Í dag var ég að róta í garðinum mínum en það hef ég ekki gert í einhvern tíma, merkilegt hvað einn garður og það manns eigin getur tekið breytingum síðan maður rótaði þar síðast. Þarna fann ég potta og pönnur og ýmislegt annað smálegt sem húsfreyjan í barðinu góða hafði hent út um gluggann hjá sér, síðast þegar bóndi hennar hafði skapraunað henni. Einnig fann ég skaft af snerli og tvinnasnuð en ekki átti ég skýringu á hvað þetta tvennt var að gera í mínum garði, satt að segja  olli þetta mér dálitlum vangaveltum og þar sem ég stóð þarna í miðjum garðinum og velti vöngum yfir þessu þá allt í einu hvað við ægilegt suð sem ætlaði mig alveg að æra.

 Ég er nefnilega alveg hræðilega viðkvæm fyrir öllu suði og ískri, eitthvað með miðeyrað að gera sagði mér einhver. Ég horfði í allar áttir og gat ekki áttað mig á hvaðan þetta hljóð kom, það eina sem ég sá var spikfeit hunangsfluga sem hringsólaði í kringum mig.

   "Á ég að segja þér, á ég að segja þér"  kom allt í einu frá þessari  búsældarlegu  hunangsflugu. Ég var nærri dottin um koll við að heyra að svona fluga þótt feit væri gæti framkallað þennan svakalega hávaða og talað með rödd sem glumdi um allan garðinn minn  sem var óvenju stór þessa stundina.

  "Hvað er í gangi" spurði ég alveg með tunguna niður að nafla.   " Það rennur lækur í stríðum straumi niður brekkuna grænu" sagði hunangsflugan óðamála.  

  " Ertu ekki að grínast"  stundi ég upp úr mér.

   "Nei og hann er búinn að gera það í allan dag"   kallaði hunangsflugan um öxl sér um leið og hún flaug í næsta garð til að segja fréttirnar.   Halo

 


Ekki geðfellt að borða litlu lömbin

Rosalega geta  hlutirnir oft  verið fráhrindandi þegar þeir eru sagðir hreint út ojojojojojojoj mjólkurlamb, lítið sætt lamb og maður fær t.d. heilt læri á diskinn.

Nú þegar hægt er að stjórna hvenær lömbin fæðast er þetta þá eitthvað sem koma skal, lömb nánast eins og kjúklingar í matinn, þá er ég að tala um í stykkjatali. Maður kannski skellir tveimur heilum mjólkurlambskrokkum í ofninn líkt og tveimur kjúklingum.  Mér líður eins og villimanni þegar ég skrifa þettaAlien


mbl.is Mjólkurlamb kynnt matgæðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langaði að heyra og sjá

Ég átti ekki kost á að mæta  á þessa tónleika og fá að njóta þess og heyra og sjá það sem þar var flutt og þá flytjendur er þar  komu fram.  Það gleður mann að sjá að fólk leggur sig fram að koma sínum baráttumálum á framfæri og leggja í það mikla vinnu og peninga. Það ber að virða þetta fólk fyrir framtak sitt,  þakka þeim fyrir störf þeirra og elju til að gera þessa tónleika að veruleika.

En hverju skilar boðskapurinn með tónleikunum, örugglega miklu því ég t.d. keyrði ekki suður til Reykjavíkur til að fara á þessa tónleika, bensínverð er orðið himinhátt og síðan vildi ég ekki spúa baneitruðum úrgangi bifreiðarinnar út í andrúmsloftið. 

En ég er að velta fyrir mér af hverju fólk sem virkilega er á móti atvinnuuppbyggingu með t.d. álveri við Bakka, fólk sem er ríkt af hugmyndum og dugnaði sem nær út fyrir land og sjó, af hverju þetta fólk leggur sig ekki betur fram við að bjarga byggðum á hjara veraldar eins og Raufarhöfn, Þórshöfn, Húsavík og nágrenni.  Hugsið ykkur hvað það myndi gerast ef þetta duglega  fólk legðist á eitt að flytja sína atvinnustarfsemi og hugmyndir á þessa staði, flytja sig þangað og hafa búsetu þar og sín fyrirtæki, borga útsvarið sitt þangað.  Halda tónleika, námskeið og allt sem þeim dettur í hug til að varna því að ekki verði virkjað  til raforkufreks iðnaðar .  Þarna mætti gera stóra hluti og þakkarverða fyrir land sitt  og þjóð ef virkilegur og raunverulegur  áhugi er fyrir hendi.

 

 


mbl.is Óður til náttúrunnar í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Bjargfrúin

Höfundur

Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Snjólaug A. Sigurfinnsdóttir
Frúin á Bjargi hefur skoðanir á öllu :)
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...1290_826126
  • ...dscn1290
  • Mynd032
  • Mynd031
  • IMG 4297

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband